12961638_10153965537626708_3414722716662133332_n

September 16, 2016

Ég bý í sumarbústað..

Það vita það ekki allir að ég bý í sumarbústað. Nú sjá allir fyrir sér 40 ferm. A hús fjarri mannabyggð, ófærð og kulda en það er nú aldeilis ekki þannig.
Þegar kreppan skall á okkur öllum sem harðast var lítið vit í að eiga tvö hýbýli og þar sem við tímdum enganvegin að selja litla kotið okkar í sveitinni seldum við íbúðina okkar í bænum, byggðum við sumarhúsið og fluttum inn.
Hér höfum við verið í sex dásamleg ár, ég mæli með þessu.. rétt hjá Reykjavík, samt úti í sveit, þú horfir á kindur og hesta, fjöll og móa út um gluggann og heyrir fátt annað en fuglasöng og í einstaka sláttuvél ef glugginn er opinn.
Hér bragðast morgunkaffið betur, þú nýtur stjarnanna í heitum pottinum á köldum vetrarkvöldum og þú nýtur sólsetursins og norðurljósanna betur en nokkur annar, hér eru engin ljós nema þau sem þú kveikir, mýs, uglur og refir eru ekki svo sjaldgæf sjón og þú skrepppur út í garð til að sækja bláber í skyrið.
Eini gallinn við þetta ef ég á að finna eitthvað er að bíllinn er alltaf og undantekningarlaust skítugur en ég reyni að lifa með því eins og íllgresinu í beðunum mínum. En auðvitað flytur þú ekki í sumarbústaðinn óundirbúinn, hér þarf að eiga tröllvaxinn bíl til að komast leiðar sinnar á veturnar, þú þarf að vera einkabílstjóri barnanna þinna ef þau eru yngri en 17 og þú skreppur ekkert út í búð ef það vantar rjóma.
Auðvitað er þetta ekki fyrir alla en ég elska þetta.
Áhugamál mín eru fjölskyldan fyrst og fremst, góðir vinir, heimilið, húsbyggingar og breytingar, garðurinn, tré, blóm, veðrið, utanlandsferðir og síðast en ekki síst jákvæð hugsun og hamingja sem ég veit að við sköpum okkur sjálf, þetta passar allt vel við lífið mitt í sveitinni.
Nú ætla ég að sjá hvort ég verði ekki duglegri að skella inn einu og einu heimilisbloggi, ég er búin að breyta eldhúsinu á margan hátt í huganum undanfarnar vikur og nú fer ég að koma hugsununum í verk, fylgist með.

Ester, í sveitinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.